það er ekki bara einn sökudólgur
Public health
10 Mar 2016
Einhliða áherslur og persónulegar skoðanir einkenna umræðuna um áfengisfrumvarpið og fylgjendur þess hafa greiðari aðgang að fjölmiðlum en andstæðingarnir. Þetta kom fram í máli Rafns M Jónssonar, verkefnastjóra áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis, á fundi í Norræna húsinu um ábyrgð fjölmiðla.
Fjölmiðlaumræðan um áfengisfrumvarpið, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, var til umræðu á málstofu Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar. Málstofan var haldin 8. mars í Norræna húsinu.
Fulltrúar frá embætti landlæknis, fjölmiðlum og Háskóla Íslands tóku þátt í umræðunni. Niðurstaða fundarins var sú að allir, bæði yfirvöld, sérfræðingar í lýðheilsumálum og fjölmiðlar þurfi að taka sig á og að það sé ekki bara einn sökudólgur sem hefur orðið til þess að slagsíða hafi myndast í umræðunni um sölu áfengis í matvöruverslunum.
Rafn fullyrti að almenningur í landinu hafi í raun enga hugmynd um afleiðingar þess að opna fyrir sölu á áfengi í matvöruverslunum, en um gríðarlega breytingu sé að ræða. Verði frumvarpið að lögum geta matvöruverslanir haft vín og bjór hvar sem er í versluninni og það eina sem verði afgirt og undir eftirlitsmyndavélum séu sterkir drykkir. Hann kvartaði yfir því að tala fyrir daufum eyrum þar sem fjölmiðlar væru annars vegar.
Ólöf Skaftadóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu og Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, kennari í Blaða- og fréttamennsku við HÍ sögðu fjölmiðla reyna að vinna faglega og sögðust þær ekki upplifa umræðuna jafn einhliða og talsmaður landlæknisembættisins gerði. Ingibjörg sagði hins vegar að það skorti gagnrýna umfjöllun um málið og að fjölmiðlar þyrftu að leita að rökum hjá stofnunum og sérfræðingum bæði hér á landi og erlendis um langtímaáhrif þess að hafa áfengissöluna frjálsari en hún er í dag. Hún sagðist sakna fleiri staðreynda um málið og færri persónulegra skoðana hagsmunaaðila.
Það kom fram í umræðunni að tímaskortur væri stórt vandamál á íslenskum fjölmiðlum og Ólöf játaði að fjölmiðlar þyrftu að taka sig á þegar þeir væru að fjalla um málið. ” Við erum að leita að fyrirsögnum til að selja og við fjölmiðlafólk þurfum að bæta okkur” sagði Ólöf.
Jóna Margrét Ólafsdóttir, lektor í félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands sagði fagfólk mætti vera duglegra við að koma staðreyndum um áhrif áfengisneyslu og annarra vímuefna á framfæri til fjölmiðla. Þörf væri á að fá fleiri sérfræðinga um þetta málefni inn í umræðuna á faglegum grundvelli. Hún kvartaði undan yfirborðskenndri umfjöllun fjölmiðla, sem leiddi til þess að fagfólkið veigraði sér við samskiptum við þá. Jóna Margrét sagði að í háskólasamfélaginu væri til mikið efni og fjölmargar rannsóknir sem staðfestu að aukið aðgengi að áfengi og öðrum vímuefnum hefði viðtæk, neikvæð áhrif. Mikilvægt væri að fjölmiðlar nýttu þessa þekkingu og kæmi henni til almennings.
Fundarstjóri var Guðrún Hálfdánardóttir, blaðamaður, en hún kvartaði undan því í lok fundarins að engir þingmenn né fylgjendur frumvarpsins skyldu mæta til þess að taka þátt í umræðunni um vínbúðir í matvöruverslunum.