Nýr norrænn vettvangur fyrir sérfræðinga með innflytjendabakgrunn og þekkingu á aðlögun flóttafólks og innflytjenda
Norræna ráðherranefndin býður sérfræðingum með innflytjendabakgrunn að miðla af reynslu sinni um mikilvæg aðlögunarmál.
- Þátttaka þín er mikilvæg til þess að ná fram kraftmikilli og margbreytilegri sýn á hvað þarf til að tryggja að vel takist til með aðlögun nýrra borgara á Norðurlöndum.
- Þú býrð yfir þekkingu á aðlögun flóttafólks og innflytjenda og hefur sjálf/ur flutt til norræns lands.
- Þú vilt stuðla að kraftmiklum þekkingargrunni og að því að sjónarhorn markhópsins sé í forgrunni í norrænu samstarfi um aðlögun flóttafólks og innflytjenda.
- Þú þarft að taka þátt í tveimur fundum samstarfsnetsins á ári og miðla þekkingu þinni í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina til annarra norrænna samstarfsvettvanga á sviði aðlögunarmála.
Skýringar
Árið 2016 ákváðu norrænu samstarfsráðherrarnir að koma á fót norrænni samstarfsáætlun um aðlögun flóttafólks og innflytjenda þar sem áhersla væri lögð á miðlun reynslu og þróun nýrrar þekkingar. Viðfangsefni verkefnisins fólu í sér að vinna saman í samstarfsneti norrænna stjórnvalda og hagaðila um málefni svo sem tungumál, nýkomin börn og ungmenni, aðlögun á vinnumarkaði og fleira. Áætlunin styður auk þess þekkingarmiðlun á norrænum ráðstefnun, málstofum og vinnufundum og miðlun nýrra rannsókna á málefnasviðinu. Dæmi um þetta má sjá hjá Norrænu velferðarmiðstöðininni sem miðlar þekkingu um aðlögun flóttafólks og innflytjenda undir merkjum aðlögunaráætlunarinnar. Í aðlögunaráætluninni er bæði lögð áhersla á formlega og menningarlega aðlögun og hún er viðbót við aðra geira, svo sem vinnumarkað, menntun og félags- og heilbrigðismál, með nýjustu þekkingu á sviði aðlögunarmála.
Félagslega sjálfbær Norðurlönd
Samstarfsáætlunin er í samræmi við sýn norræns samstarfs um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi á árunum fram til 2030 og styður sérstaklega við eftirfarandi áherslusvið:
- Félagslega sjálfbær Norðurlönd – Saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.
Til þess að raungera þessi orð hefur Norræna ráðherranefndin unnið aðgerðaáætlun fyrir tímabilið 2021-2024. Aðgerðaáætluninni er skipt í 12 almenn markmið og er hún stefnumótandi skjal í allri starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á tímabilinu 2021-2024.
Markmiðið með sérfræðingavettvanginum er nánara samráð við nýja Norðurlandabúa sem vilja leggja sitt af mörkum til framtíðarsýnarinnar, sérstaklega vegna þeirra markmiða sem skipta máli fyrir framkvæmd norrænu samstarfsáætlunarinnar um aðlögun flóttafólks og innflytjenda.
Þátttaka
Með sérfræðiþekkingu þinni og innflytjendabakgrunni munt þú stuðla að:
- Ígrunduðum og margbreytilegum þekkingargrunni fyrir áframhaldandi norrænt samstarf um aðlögunarmál.
- Sameiginlegu norrænu sjónarhorni á aðlögun flóttafólks og innflytjenda sem byggir á sambærilegum grunni í hverju landi fyrir sig.
- Að því að aðlögunaráætlun Norrænu ráðherranefndarinnar eigi betri möguleika á að samþætta sjónarhorn markhópsins í áframhaldandi samstarfi um aðlögun flóttafólks og innflytjenda.
Norræna ráðherranefndin hyggst bjóða til tveggja fjarfunda á ári þar sem áhersla er lögð á að byggja upp samstarfsnet, umræður um málefnið og upplýsingamiðlun um málefni sem eru ofarlega á baugi á sviði aðlögunaráætlunarinnar.
Sérfræðingavettvanginum verður auk þess, eftir því sem þörf krefur, boðið til samtals með þeim aðilum sem bera ábyrgð á aðlögunaráætluninni hjá Norrænu ráðherranefndinni en í samráðshópnum sem tengist verkefninu sitja fulltrúar norrænna ráðherra með ábyrgð á aðlögunarmálum. Hér verður hægt að leggja fram hugmyndir um málefni sem varða skilvirkni, inntak og skipulag við framkvæmd aðlögunaráætlunarinnar.
Sérfræðingavettvangurinn verður skipaður tveimur fulltrúum frá hverju hinna norræna ríkja ásamt Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum. Sérfræðingavettvangurinn er skipaður til þriggja ára og velur formann sérfræðingahópsins til eins árs og er hann fulltrúi þess lands sem gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni hverju sinni. Formaðurinn gerir dagskrá í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina og hittir samráðshópinn sem tengist aðlögunarverkefninu á fyrsta ársfjórðungi til að skipuleggja starfsemi á árinu. Norræna ráðherranefndin gegnir hlutverki skrifstofu fyrir sérfræðingavettvanginn og ritar fundargerðir á fundum hans. Þátttaka í sérfræðingavettvanginum er sjálfboðastarf og ekki er greitt fyrir hana. Norræna ráðherranefndin greiðir í undantekningartilvikum kostnað sem tengist ferðalögum.
Viðmið
Sem fulltrúi í sérfræðingahópnum þarftu að
- vera fulltrúi samtaka/stofnunar sem starfar að aðlögunarmálum eða taka þátt á eigin forsendum sem sérfræðingur á sviði sem skiptir máli fyrir aðlögun flóttafólks og innflytjenda.
- hafa þekkingu á einu eða fleiri af eftirfarandi sviðum: vinnumarkaði, menntun, félags- og heilbrigðismálum, jafnrétti, lýðræði, borgaravitund, aðgreiningu.
- vera fædd/ur utan Norðurlandanna og hafa flust til norræns lands.
- hafa algert vald og einu norrænu tungumáli og/eða ensku.
Umsóknir og val
Sótt er um með því að fylla út umsóknareyðublað (dansk, English) með upplýsingum um:
- Menntunarlegan bakgrunn og núverandi starf.
- Þekkingu á aðlögun flóttafólks og innflytjenda.
- Ástæðu þess að þú vilt verða þátttakandi í norræna sérfræðingavettvanginum.
Samráðshópurinn sem tengist aðlögunarverkefninu mun velja þátttakendur í sérfræðingavettvanginn og tryggja í valferlinu breidd varðandi sérfræðisvið, aldur, upprunaland, nýtt heimaland og kyn.
Umsóknartímabilið vegna sérfræðingavettvangsins verður á frá 1.7.2021 til 31.8.2021. Gert er ráð fyrir að valferlinu verði lokið 15.9.2021.